Brynjar Níelsson, þingmaður sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir í færslu á facebook þá sem „útmálað“ hafi Piu Kjærsgaard og segir þá hljóma fasíska. Pia, sem er forseti danska þingsins og einn stofnenda Danska Þjóðarflokksins, var heiðursgestur á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

Brynjar segir vinstri menn gjarnan kalla pólitíska andstæðinga sína fasista og rasista, á meðan þeir frægustu meðal þeirra séu sjálfir „grjótharðir sósíalistar“. Hann segir fasisma miklu tengdari marxisma en hægri stefnu.

Hann segir marga í Danmörku og víðar telja óhjákvæmilegt að herða innflytjendalöggjöfina, en það hafi ekkert að gera með hatur, og að ekkert í stefnu Danska Þjóðarflokksins bendi til slíks haturs.

Þrátt fyrir það sé til fólk sem hatar þá og er ósammála þeim, og vilji helst að skoðanir þeirra verði gerðar refsiverðar og þeir útskúfaðir úr samfélaginu, sem Brynjar segir hljóma „soldið fasískt“.

Brynjar nefnir hvergi ákveðinn stjórnmálamann- eða flokk, en leiða má að því líkur að Píratar séu í hópi „þeirra barnalegustu“ meðal vinstrimanna að mati Brynjars, enda hafa þeir verið hvað háværastir í gagnrýni sinni á Piu.

Viktor Orri Valgarðsson, fyrrverandi varaþingmaður Pírata, vænir Brynjar um strámannsrökvilluna, og segir „engan þeirra sem mótmælt hafi komu Piu vera marxista eða aðdáanda ráðsstjórnarríkjanna“. Hann bendir á að þingmenn Pírata hafi beitt sér gegn löggjöf gegn hatursorðræðu og öðrum höftum á tjáningafrelsinu, og því sé sú hugmynd að þeir vilji gera skoðanir Piu refsiverðar hlægileg.