Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir umræðuna um kjördæmafund með fulltrúum flokkanna í borginni í Höfða í vikunni hafa endað alveg út í skurði. Segir hann engan hafa reynt að setjast í sæti einhvers annars eins og ætla má af færslu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um málið eftir á enda um óformlega fundi að ræða.

Segir hann Dag hafa sýnt ofurviðkvæmni en Eyþór hafi brugðist við af kurteisi. „Aukaatriði verða að aðalatriðum og öfugt,“ segir Birgir sem fjallar um umræðu fjölmiðla upp úr færslu borgarstjóra sem situr í umboði meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar um það þegar hann vísaði oddvita Sjálfstæðismanna í borginni, Eyþóri Arnalds af fundi.

„Ekki upplifði ég þessi atvik með sama hætti og Dagur og áttaði mig ekki alveg á taugatitringi og ofurviðkvæmni hans gagnvart því að Eyþór Arnalds kæmi sem gestur á fundinn. En látum það vera. Því máli lauk þannig að þegar Dagur hafði lýst afstöðu sinni við upphaf fundar brást Eyþór þegar við af eðlislægri kurteisi og vék af fundi.“

Reyndi ekki að troða sér í sæti forsætisráðherra

Segir Birgir að fundurinn hafi að öðru leyti gengið vel og verið í samræmi við væntingar enda ekki um mjög formlega fundi að ræða. Heldur hafi þingmenn, borgarfulltrúar sem og frambjóðendur til borgarstjórnar gott af því að skiptast á skoðunum um framtíðarsýn, og skipulag borgarinnar, hvernig grunnþjónustu er sinnt og hvernig borgin hagi skattheimtu og gjaldtöku sem dæmi.

„Það sem mér þykir hins vegar einkennilegast í frásögn Dags og fréttaflutningi sem byggður er á henni er hvernig sæti forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, á fundinum er allt í einu orðið eitthvað umræðuefni eða jafnvel aðalatriði í þessu sambandi,“ segir Birgir.

„Af fréttum sumra fjölmiðla mætti ætla að Eyþór hafi reynt að bola forsætisráðherra úr sæti sínu eða verið að troðast þangað áður en hún kom í fundarherbergið, en ekkert í líkingu við það átti sér stað. Væri hægt að fara út í lengri atvikalýsingar og umfjöllun um það ef tilefni væri til. Nægir að nefna að svo stöddu að sætaskipan á fundinum var ekki niðurnjörfuð heldur frekar laus í reipum - enda þessir fundir að jafnaði ekki mjög formlegir - og enginn settist eða reyndi að setjast í sæti einhvers annars.“

Hér má lesa fleiri fréttir um málið: