Mario Draghi forseti Seðlabanka Evrópu segir að enn sé þörf á aðgerðum seðlabankans á evrusvæðinu til þess að koma á stöðugri verðbólgu. Þetta kom fram í ræðu hans á Evrópuþinginu í Brussel í dag.

Draghi sagði jafnframt að þrátt fyrir aukinn hagvöxt á evrusvæðinu væri verðbólguþrýstingur ekki nægjanlega mikill.  Hann bætti við að þrýstingur á kostnaðaraðhald þá sérstaklega á laun í evrulöndunum væru ástæða þess að ekki væru aðstæður fyrir varanlega og sjálfbæra verðbólgu sem væri nálægt verðbólgumarkmiðum seðlabankans. Yfirlýst markmið bankans er 2% verðbólga á ársgrundvelli.

Forsetinn sagði einnig að ekki væri útlit fyrir að bankinn myndi breyta peningastefnu sinni. Þetta þýðir að stýrivextir á evrusvæðinu verða að öllum líkindum áfram 0%. Þá staðfesti Draghi einnig að takmörk á magnbundna íhlutun bankans í löndum evrusvæðisins yrðu áfram til staðar og ekki yrði farið yfir þau mörk.