Bjarni Benediktsson segir að fleiri ríki hafi lagst gegn ráðningu Þorvalds Gylfasonar sem ritsjóra Nordic Economics Policy Review. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Bjarna.

„Þegar til kastanna kom var Ísland ekki eina ríkið sem ekki féllst á tillögu um ráðningu Þorvaldar Gylfasonar, eins og starfsmenn norrænu ráðherranefndarinnar hafa upplýst Þorvald um. En telji hann sig eiga eitthvað inni vegna óuppfylltra væntinga þarf hann að reka þau mál við þann sem sendi honum þetta meinta atvinnutilboð, - í fullkomnu heimildar- og umboðsleysi. Mögulega mun hann njóta fulltingis einhverra þingmanna Samfylkingar, jafnvel Pírata, á þeirri leið. Spurning er bara hvort það væru ekki óeðlileg afskipti af þeirra hálfu af ráðningu í starf sem aldrei hefur verið auglýst," segir Bjarni.

Hann segir jafnframt að Þorvaldur Gylfason eigi tæplega samleið með ráðuneytinu.

„Það er meira en sjálfsagt að mæta fyrir þingnefnd og rekja þessi sjónarmið nánar. Þá gefst mögulega tækifæri til að fara nánar ofan í saumana á því hvers vegna ég tel Þorvald Gylfason tæplega eiga samleið með mínu ráðuneyti í þessu verkefni eða yfirhöfuð um önnur stefnumarkandi mál. Það verður þá í fyrsta sinn sem ég ræði um mögulegt samstarf við Þorvald Gylfason en ekki þarf að leggjast í mikla rannsóknarvinnu til að finna út hvaða hug Þorvaldur hefur borið til þeirra ríkisstjórna sem ég hef setið í undanfarin ár. Ef þörf krefur skal farið betur yfir það fyrir þingnefnd," segir Bjarni.