Súrefniskerfið í 787 Dreamliner farþegaþotu Boeing gæti brugðist þannig að súrefnisskortur verði í farþegarými ef vélin verður fyrir skyndilegri þrýstiminnkun. Þetta fullyrðir fyrrum gæðastjóri (e. Quality control manager) hjá Boeing, John Barnett, sem hefur stigið fram og gagnrýnt félagið fyrir yfirhylmingu og slakt gæðaeftirlit í fjölmiðlum.

Boeing hefur neitað öllum ásökunum Barnett og fullyrða talsmenn félagsins að framleiðslan sé í samræmi við ítrustu gæða- og öryggiskröfur.

BBC fjallar um málið og ræðir við Barnett um ásakanirnar og ástæðu þess að hann hafi ákveðið að stíga fram. Barnett er 57 ára gamall og hóf störf sem gæðastjóri hjá Boeing árið 2010 í verksmiðju félagsins í Suður Karólínu á austurströnd Bandaríkjanna. Hann segir vandamál í súrefniskerfinu hafi uppgötvast árið 2016 en vegna þrýstings frá yfirstjórn félagsins hafi vandinn ekki verið leystur og framleiðslan haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Marnett segir tilraunir sínar til að vekja athygli á málinu hafi verið skotnar niður af yfirstjórnendum. Ári seinna hafi hann leitað til flugmálayfirvalda (FAA) og kvartað yfir því að ekkert hafi verið gert til að bregðast við gallanum. FAA hafi varað umkvörtunum hans á þann vega að ekki hafi verið hægt að staðfesta ásakanir hans þar sem Boeing hafi verið að vinna að lausn málsins.

Boeing neitar eins og áður sagði öllum ásökunum Bernetts en viðurkennir að árið 2017 hafi nokkrir súrefniskútar frá birgja ekki virkað sem skyldi en þeim hafi verið skipt út fyrir nýja. Félagið hafi leyst málið í samvinnu við birgja félagsins.

Þetta er þó ekki eina ásökun Barnetts sem fullyrðir að Boeing hafi vísvitandi notað gallaða hluti við framleiðsluna. Ásökunin rímar við athugasemdir sem FAA gerði árið 2017 þegar yfirvöldin kröfðu Boeing um skýringar á 53 varahlutum sem ekki hafi samræmst reglum. Boeing neitar sömuleiðis þessum ásökunum Barnetts og segist hafa komið að fullu til móts við athugasemdir FAA.

Barnett hefur ákveðið að stefna Boeing fyrir að hafa skaðað mannorð hans og dregið fagmennsku hans í efa, sem hafi að lokum leitt til þess að hann látið af störfum og geti ekki fundið aðra vinnu sem hæfi menntun hans og þekkingu.

Hann segist hafa mikla áhyggjur af öryggi þeirra véla sem framleiddar voru á meðan hann starfaði hjá félaginu. Reynsla hans og þekking á flugslysum segi honum að aðeins sé tímaspursmál þangað til Boeing 787 vél lendi í stórslysi. „En ég bið til guðs um að ég hafi rangt fyrir mér,“ segir Barnett í samtali við fréttastofu BBC.