Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og þingmaður og núverandi forstjóri Hornsteins ehf., segir hagsmunasamtök í atvinnulífinu komin á hálan ís með því að kalla eftir bólusetningarpassa.

Þorsteinn lætur orðin falla í færslu á Facebook og vísar til orða Andrésar Magnússonar framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu og Jóhannesar Þórs Skúlasonar framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Eindreginn stuðningsmaður bólusetninga
Í færslunni dregur Þorsteinn gagnsemi slíkra passa í efa þar sem bæði bólusettir og óbólusettir geti borið með sér smit, auk þess að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem boðin hefur verið bólusetning hafi þegið hana hér á landi.

Hann tekur fram að sjálfur sé hann fullbólusettur og sé eindreginn stuðningsmaður bólusetninga. Hann hafi hinsvegar „engan áhuga á að þurfa að sveifla bólusetningarpassa í tíma og ótíma“.

Í andsvari við athugasemd við færsluna bætir Þorsteinn við að slík aðgerð myndi brjóta gegn friðhelgi heilsufarsupplýsinga fólks, og varar við því fordæmi sem með því væri sett.