Samkeppnisumhverfið á ferðaskrifstofumarkaði er óeðlilegt, að því er Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, segir í viðtali við Morgunblaðið í dag. Áður hafði Túristi fjallað ítarlega um málið í nokkrum fréttum.

Þórunn bendir á að erfitt sé að eiga í viðskiptum við eina íslenska millilandaflugfélagið sem starfandi er í dag, Icelandair, meðan það rekur einnig eina stærstu ferðaskrifstofu Íslands, VITA. Stjórnendur flugfélagsins sitji einnig í stjórn VITA og því geti verið erfitt að ræða við umrædda stjórnendur.

„Við sitjum að sjálfsögðu ekki við sama borð og VITA, það er það sem við höfum verið að benda á,“ er haft eftir Þórunni í Morgunblaðinu.

Iceland Travel, dótturfyrirtæki Icelandair er í söluferli, þar sem Icelandair vill einbeita sér betur að flugrekstri; kjarnastarfsemi félagsins. Það bendir þó fátt til þess að félagið muni selja VITA.