Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir það ekki koma á óvart að rekstrarafkoma Reykjavíkurborgar hafi verið góð á síðasta ári. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um var afgangurinn af rekstri sveitarfélagsins 2,6 milljarðar en Kjartan segir það almennt vera svo meðal sveitarfélaga um þessar mundir vegna góðærisins.

„Afkoma flestra sveitarfélaga batnaði verulega á árinu 2016 og er Reykjavíkurborg þar engin undantekning. Reykjavíkurborg naut þá mikils tekjuauka vegna þess að miklar launahækkanir skiluðu sér beint í hærri útsvarstekjum,“ segir Kjartan.

Borgin nýtir ekki stærðarhagkvæmni

Á sama tíma bendir Kjartan á að verðbólgan hafi verið lægri en gert hafi verið ráð fyrir en hann segir nú kjöraðstæður vera í samfélaginu fyrir rekstur sveitarfélaga.

„Þó var nýtt met slegið í skattheimtu Reykjavíkurborgar á árinu 2016,“ segir Kjartan sem segir ýmis hættumerki að sjá í ársreikningnum.

„Þrátt fyrir mettekjur borgarsjóðs á síðasta ári halda skuldir og skuldbindingar hans áfram að aukast og námu þær um 84 milljörðum króna um síðustu áramót. Margt þarf að bæta í rekstri Reykjavíkurborgar og í ársreikningnum má víða finna merki um að stjórn fjármála sé ábótavant.

Þegar rekstur borgarinnar er borinn saman við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sést að hún nær ekki að nýta stærðarhagkvæmni í rekstrinum. Undir forystu Samfylkingarinnar eru skatttekjur á hvern íbúa mun hærri í Reykjavík en í helstu nágrannasveitarfélögum er reksturinn mun betri þrátt fyrir að álögur séu töluvert lægri.“