Fiskistofa hefur svipt Kleifaberg RE veiðileyfi í 3 mánuði frá og með 4. febrúar næstkomandi vegna meintra brota á lögum um brottkast afla sem áttu að hafa verið framin fyrir um áratug. Fiskifréttir fjallar ítarlega um baksögu málsins en málið má rekja aftur til umfjöllunar í fréttaskýringarþætti á Ríkissjónvarpinu.

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. sem gerir út Kleifaberg RE 70 mun kæra úrskurð Fiskistofu sem í máli þessu rannsakaði bæði meint brot og felldi úrskurð en félagið telur sig ekki hafa notið sanngjarnrar málsmeðferðar að því er segir í fréttatilkynningu.

ÚR telur málatilbúnað Fiskistofu ekki standast en úrskurður hennar byggir á lýsingu eins manns og myndskeiðum  sem auðvelt er að eiga við og bjaga eins og ÚR benti á í andmælum sínum til Fiskistofu á síðasta ári. Þá hefur ÚR kært eitt umræddra myndskeiða til lögreglu en það er að mati félagsins og sérfærðinga þess falsað.

Þá telur ÚR að þau meintu brot sem sögð hafa verið framin á árunum 2008 og 2010 séu löngu fyrnd samkvæmt lögum nr. 57/1996. Kæra ÚR til atvinnu- og nýsköðunarráðuneytisins frestar ekki leyfissviptingunni sem að mati útgerðarinnar mun rýra tekjur félagsins um allt að einum milljarði króna og auk þess valda henni varanlegum skaða þar sem óvíst er hvort þetta farsæla veiðiskip haldi aftur til veiða.

Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur sem gerir út Kleifarbergið segir Kleifarbergið meðal fengsælustu fiskiskipa íslenska flotans.„Þetta eru gríðarlega hörð viðurlög - í raun dauðadómur yfir Kleifabergi RE-70,“ segir Runólfur Viðar.

„Afli skipsins frá árinu 2007 hefur verið tæp 100.000 tonn og aflaverðmæti yfir 30 milljarðar króna á núvirði. Lang stærsti hluti þessa frábæra árangurs má þakka yfirburða áhöfn á skipinu. Ef skipið stoppar í 3 mánuði eru allar líkur á að sjómenn á Kleifabergi fái vinnu á öðrum skipum. Með þessari ákvörðun er verið að leggja niður 52 manna vinnustað.“