Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir veiðigjöld „landsbyggðarskatt [sem] verður að lækka,“. Útgerðir í Vestmannaeyjum greiddu yfir milljarð króna í veiðigjöld á fiskveiðiárinu sem lauk 1. september, sem er nærri tvöföldun frá árinu áður. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.

Íris segir veiðigjöldin íþyngjandi og segir að treysta verði að ríkisstjórnin og Alþingi standi við gefin fyrirheit um lækkun þeirra. Þá bendir hún á að styrking krónunnar hafi lækkað það verð sem fæst fyrir sjávarafurðir.

„Þessir peningar væru betur komnir hér í Eyjum, þar sem þeir urðu til, en í ríkishítínni.“ segir Íris ennfremur. Hún telur mikilvægt að þegar ákvarðanir séu teknar um mál heimamanna séu þeir jafnan í ráðandi stöðu, og fagnar því að eyjamenn verði hafðir með í ráðum varðandi tíðni ferða og gjaldskrá þegar nýr Herjólfur taki við.