Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra segir að stóra markmiðið með vinnu starfshóps fjármálaráðuneytisins um aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi sé baráttan gegn skattsvikum, kennitöluflökkurum og skattskjólseigendum. Segir hann að það sé óþarfi að eyða tíma í það sem nefnt var í framhjáhlaupi. Þetta kom fram í viðtali við Benedikt í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni nú fyrir hádegi, þar sem rætt var um hugmyndir ráðherra um að draga úr notkun á reiðufé almennt.

Hann segist hafa lært þá lexíu að það sé betra að nálgast hlutina með jákvæðum hætti. Betra sé að beita hvötum heldur en bönnum sem hann segir vera meira í ætt við sína lífsspeki. Sjálfur viðurkennir hann það að honum hafi þótt tillagan, skemmtilega flippuð eða „nörduð” og hafi hugsað að það yrði einhver umræða um þetta. Honum hafi þó ekki órað fyrir því að umræðan yrði svona mikil og að hann yrði skúrkurinn með þessum hætti. Bætti hann því við að mögulega hefði verið hægt að fara aðra leið.

Benedikt sagði einnig að mögulega hefði mátt horfa meira á hugmynd sem starfshópurinn var líka með sem fjallaði um að ókeypis rafeyrisreikningar yrðu opnaðir í Seðlabankanum. Reikningarnir væru eins og ígildi reiðufjár nema að menn gætu notað þá til greiðslu og þyrftu ekki að borga færslugjöld af þessum innistæðum. „Ef menn vilja þetta þá er betra að gera þetta með jákvæðum hætti,“ sagði ráðherran og benti á að svona reikningur gæti verið öruggari en hins vegar væri enginn skyldugur til að nota reikningana