Samfélagsmiðillinn Twitter hefur greint frá samstarfi við tvær af stærstu fréttaveitum heims, Reuters og the Associated Press. Er samstarfinu ætlað að draga úr falsfréttaflóði inni á samfélagsmiðilinum. BBC greinir frá.

Munu fréttaveiturnar m.a. aðstoða Twitter við að bæta aðgengi notenda að bakgrunnsupplýsingum, ásamt því að setja atburði sem mest fer fyrir hverju sinni inni á miðlinum í samhengi.

Segir Twitter að samstarfið geri miðlinum kleift að ganga úr skugga um að hnitmiðaðar og áreiðanlegar upplýsingar um atburði séu áberandi í umræðunni jafn skjótt og staðreyndir máls liggja fyrir.

Í dag vinnur sérstakt teymi hjá Twitter við að koma á framfæri meðal notenda samfélagsmiðilsins áreiðanlegum upplýsingum um tiltekna atburði, frá áreiðanlegum fjölmiðlum. Er þetta gert til þess að bregðast við röngum eða misvísandi upplýsingum sem hafa farið á flug inni á miðlinum.

Er ofangreindu samtarfi ætlað að flýta umræddu ferli enn frekar.