Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins fagna stýrivaxtalækkun um 25 punkta sem kynnt var í morgun en segja jafnframt að nauðsynlegt sé að lækka vexti enn frekar. Frá þessu er greint á vef Samtakanna.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti úr 4% í 3,75%. Frá þessu var greint í morgun. Er þetta önnur vaxtalækkun bankans á skömmum tíma en vextir lækkuðu um 0,5% í lok maí.

„Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi, sem var haldinn í lok maí, hefur verðbólga hjaðnað og verðbólguvæntingar fyrirtækja og markaðsaðila lækkað meira en sem nemur vaxtalækkun dagsins í dag. Miðað við þá þróun er aðhald peningastefnunnar að aukast þrátt fyrir boðaða vaxtalækkun. Ljóst má vera að rými til vaxtalækkunar er meira og hefði verið æskilegra að tryggja slaka í aðhaldi peningastefnunnar í ljósi þess að efnahagsslaka sem framundan er," segir á vef Samtaka atvinulífsins.

„Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður kynnt 28. ágúst nk. Að mati SI er full ástæða til þess að halda vaxtalækkunarferlinu áfram þá," segir á vef Samtaka iðnaðarins.