„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og samgönguráði telja fund ráðsins sem nú stendur yfir ólögmætan, enda ekki rétt staðið að boðun fundarins. Sú ákvörðun var tekin af fulltrúum Sjálfstæðisflokks að víkja af fundi ráðsins í morgun vegna þessa. Athygli formanns ráðsins var vakin á málinu í gær og farið fram á að fundinum yrði frestað og boðað til hans að nýju," þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Þá segir í tilkynningunni að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geri athugasemdir við boðun fundarins. Skipulags- og samgönguráð starfi enn samkvæmt samþykktum um umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 21. júní 2016. Í 2. mgr. 7. gr. samþykktanna kemur fram að fundi skuli boða með minnst sólarhrings fyrirvara og að dagskrá skuli fylgja fundarboði.

„Annars vegar láðist formanni ráðsins að senda borgarfulltrúanum og fulltrúa Sjálfstæðisflokks í ráðinu, Hildi Björnsdóttur, fundarboð innan lögbundins frests en það sama á við um áheyrnarfulltrúa Miðflokksins. Hins vegnar fylgdi dagskrá fundarins ekki fundarboði líkt og 2. mgr. 7. gr. samþykktanna gerir ráð fyrir. Dagskráin barst ekki fulltrúum ráðsins fyrr en eftir hádegi í gær, degi fyrir áformaðan fund. Það getur með engu móti talist nægjanlegur tími fyrir ráðsmenn að kynna sér efni og gögn fundarins með fullnægjandi hætti, enda gögnin fleiri hundruð blaðsíður. Á dagskrá fundarins eru 75 mál og umtalsverður fjöldi gagna sem ráðsmenn verða að kynna sér. Flest þessara mála varða heilmikla hagsmuni fyrir borgarbúa og skiptir miklu að rétt sé haldið á allri ákvarðanatöku. Öðrum kosti geta þeir aðilar sem eiga mál fyrir nefndinni, látið reyna á lögmæti ákvarðanatöku fundarins, fyrir dómstólum eða eftir öðrum leiðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja ríka áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð í málaflokknum."