Hlutabréf í bresku verslanakeðjunni Debenhams lækkuðu um allt að átta% í verði í morgun eftir að stjórnendur keðjunnar höfnuðu því að hún glímdi við lausafjárskort.

Sunday Times greindi frá því í gær að tvö greiðslutryggingafyrirtæki, Atradius og Coface, hefðu neitað að tryggja ný viðskipti birgja við Debenhams og þriðja fyrirtækið, Euler Hermes, hefði jafnframt dregið úr greiðslutryggingum sínum.

Forsvarsmenn Debenshams sendu frá sér tilkynningu í morgun þar sem þeir sögðu lausafjárstöðu verslanakeðjunnar „heilbrigða“. Þeir tóku auk þess fram að allir þrír lánatryggjendurnir veittu birgjum keðjunnar enn greiðslutryggingu upp að ákveðnu marki.

Debenhams hefur sent frá sér þrjár afkomuviðvaranir á þessu ári en hlutabréf í verslanakeðjunni hafa lækkað um 60 prósent það sem af er árinu. Í skoðun er að endurskoða eignarhald keðjunnar á þeim eignum sem ekki tengjast kjarnastarfsemi félagsins.

Margar verslanakeðjur í Bretlandi hafa þurft að draga saman seglin og loka verslunum á undanförnum misserum meðal annars vegna aukinnar samkeppni við netverslanir.