Samskip segja niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að heimila samstarf Eimskip og grænlenska ríkisfyrirtækisins Royal Arctic Line A/S vekja furðu og án fordæma í evrópskum samkeppnisreglum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun sumars kærði Samskip ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því um miðjan apríl 2017 um að heimila samstarfið sem felur í sér samnýtingu á plássi í áætlunarsiglingum.

Munu félögin þar með deila kostnaði og ávinningi af siglingum á milli Grænlands og Póllands með viðkomu í Reykjavík, Þórshöfn í Færeyjum, Osló í Noregi, Árósum í Danmörku og Helsingborg í Svíþjóð.

Tvö skip frá Eimskip og eitt grænlenskt sigla sömu leiðina

Samkeppniseftirlitið setti samstarfinu fjögur skilyrði en mat að öðru leiti samstarfið til hagsbóta fyrir íslenska neytendur því það leyfi grænlenska skipafélaginu að bjóða upp á vikulegar áætlunarsiglingar til Íslands og þjónusta þannig íslenska viðskiptavini.

Eiga skilyrðin m.a. að tryggja aðgang grænlenska skipafélagsins að hafnaraðstöðu á Íslandi, auk þess sem stuðlað er að því að laust flutningspláss geti nýst almennum viðskiptavinum, umboðsmönnum og flutningamiðlunum. Félögin hyggjast nýta þrjú skip í siglingarnar, tvö frá Eimskip en það þriðja frá Royal Arctic Line og skipta milli sín raunflutningsgetunni.

Bæði Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefndin heimila samstarfið

Áfrýjunarnefndin birti svo í gær niðurstöðu sína um að hafna kröfum og málsástæðum Samskipa og tók hún undir með Samkeppniseftirlitinu og sagði viðbótarskilyrðin hafa jákvæð samkeppnisleg áhrif og verða til hagsbóta fyrir íslenska neytendur.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telur einnig að viðbótarskilyrðin innihaldi einnig mikilvægt hegðunarskilyrði undanþágubeiðenda og veiti Samkeppniseftirlitinu tækifæri til að fylgjast náið með þróun markaðarins og þeirra breytinga sem kunna að verða á honum í ljósi samstarfs félaganna. Hafi Samkeppniseftirlitið þannig möguleika á að grípa inn í þá þróun gerist þess þörf.

Samskip segja félögin markaðsráðandi en fá að styrkja stöðu sína

Eimskip taldi kæruna ekki hafa við rök að styðjast og fagnar niðurstöðunni, en Samskip segir hins vegar að það sé án fordæma að tveimur markaðsráðandi fyrirtækjum eins og félagið kallar Eimskip og Royal Arctic Line, að sameinast með þessum hætti um veigamikla þætti í rekstrinum, í því skyni að styrkja enn frekar stöðu sína á markaði.

Segir Samskip í að samkeppnisyfirvöld séu þar með að veita tveimur keppinautum undanþágu frá banni við samráðsákvæði samkeppnislaga, þrátt fyrir að samstarf sé í brýnni andstöðu við þau.

„Samskip fá ekki séð hvernig þessi ákvörðun getur talist í þágu samkeppni á markaði, enda er ákvörðunin til þess fallin að styrkja verulega stöðu markaðsráðandi fyrirtækja. Með henni er dregið úr samkeppnislegu aðhaldi, þvert á markmið grunnreglna samkeppnislaga,“ segir m.a. í tilkynningu Samskip.

„Samskip telja þessa ákvörðun afar misráðna og til þess fallna að auka enn yfirburði Eimskips á sjóflutningamarkaði á kostnað smærri keppinauta. Eimskip er nú þegar í markaðsráðandi stöðu á umræddum markaði, auk þess að vera í einokunarstöðu í flutningum milli Íslands og N-Ameríku. Þá felst í ákvörðuninni að erlendu ríkisfyrirtæki er með samstarfi við markaðsráðandi fyrirtæki á Íslandi gert kleift að öðlast verulega hlutdeild á markaðnum. Á sama tíma er íslenskum sjóflutningafyrirtækjum með öllu óheimilt að bjóða þjónustu sína á Grænlandi vegna sérleyfa Royal Arctic Line.“

Hér má lesa frekari fréttir um Eimskipafélag Íslands og flutningageirann: