Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands, og Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, gera eignarhald hins opinbera á bönkunum að umtalsefni í skýrslu sinni um Ísland fyrir Bertelsmann Stiftung.

Skýrslan nefnist Sustainable Governance Indicators 2020, og í henni eru ýmsir þættir er snúa að sjálfbærum stjórnarháttum metnir til stiga. Þannig eru stig skýrslunnar vegna mats á spillingu notaðar í spillingarvísitölu Transparency International.

Sjá einnig: Spilling ekki aukist á Íslandi

Í skýrslunni er bent á að tveir þriðju hlutar bankageirans séu enn í eigu hins opinbera og að stjórnvöld hafi enn ekki kynnt skýrar áætlanir um endurskipulagningu bankanna. Þetta leiði til þess að óvissa sé um framtíðar eignarhald bankanna, ekki síst um skiptingu milli einkaaðila og hins opinbera annars vegar, og erlendra og innlendra hluthafa hins vegar.

Þá segir að Ísland sé eitt fárra landa í heiminum sem ekki hafi erlenda samkeppni á bankamarkaði. Þetta setji eigendur bankanna í einokunarstöðu, sem í skýrslunni er sögð sérkenni íslenska bankageirans, og hjálpi til við að útskýra hvers vegna eignarhald í bönkunum er svo eftirsótt meðal "viðskiptaelítunnar".

Starfshættir hafi batnað

Skýrsluhöfundar segja starfshætti bankanna hafa batnað eftir bankahrunið, í dag séu eigendur bankanna ekki stærstu lántakar þeirra líkt og áður. Þá tíðkist lánveitingar til „vel-tengdra" viðskiptavina vegna hlutabréfakaupa, sem voru eingöngu tryggðar með veði í bréfunum sjálfunum, ekki lengur.

Hins vegar vilja skýrsluhöfundar meina að bankarnir séu enn sakaðir um ákveðnir „forréttinda" viðskiptavinir fái enn ógagnsæja sérmeðferð hvað varðar afskriftir hárra lána sem öðrum standi ekki til boða, án viðeigandi skýringa á þeirri mismunun. Þá sé erfitt að staðfesta slíkar afskriftir vegna bankaleyndar. Ekki kemur fram hvaðan téðar ásakanir koma eða hverju þær eru studdar.

Þess má geta að ofangreind samantekt á umfjöllun prófessorana um bankana og bankakerfið er ekki í kafla þeim sem fjallar um spillingu og metinn er til stiga í spillingarvísitölunni.