Hollvinasamtök Elliðaárdals segja byggingu lífhvolfs eða þjónustumiðstöðvar í glerhvolfi í jaðri dalsins hafa í för með sér bæði umhverfismengun og ljósmengun og leggjast gegn áformunum. Segja samtökin málsmeðferð málsins borgaryfirvalda við vinnslu málsins gefa tilefni til þess að málið verði kært til Skipulagsstofnunar.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi samþykktu fulltrúar meirihlutans í Reykjavík, það er Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar, á fundi borgarráðs 4. júlí 2019 tillögu um breytt deiliskipulag fyrir lóðina Stekkjarbakka Þ73.

Felur breytta deiliskipulagið í sér leyfi fyrir uppbyggingu á um 43 þúsund fermetra lóð þar sem m.a. stendur til að byggja „4.500 fermetra gróðurhús með tilheyrandi bílastæði norðan við Stekkjarbakka, ofaní Elliðaárdalinn á lítið raskað svæði,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

„Slík bygging mun m.a. hafa í för með sér umhverfismengun vegna nálægðar við uppeldisstöðvar laxaseiða í Elliðárdalnum, auk ljósmengunar. Verkefnið er ófjármagnað og mun því standa sem framkvæmdaverkefni í miðjum dalnum næstu ár.“

Segjast samtökin ætla að óska eftir íbúakosningu um málið, en jafnframt segjast þau ætla að hefjast handa við að fá áformunum hnekkt, og vænta þau til þess stuðningi borgarbúa og allra Íslendinga „því dalurinn er eign okkar allra.“

Í yfirlýsingunni segir jafnframt: „Tilgangur félagsins er að standa vörð um Elliðaárdalinn, mynda sátt um ytri mörk hans sem og lífríki og mannvirki innan og á mörkum hans. Sáttin verði byggð á sjónarmiðum náttúruverndar, útivistar og menningar.“

Teikning af gróðurhúsum í Elliðaárdal
Teikning af gróðurhúsum í Elliðaárdal
© Skjáskot (Skjáskot)

Lífhvolfið Aldin verður á hluta af því svæði sem merkt er með rauðu, á lóð sem borgaryfirvöld hafa nú afmarkað við Stekkjarbakka.