Samtök atvinnulífsins telja ásakanir Framsýnar sem komu fram í dag marklausar og ómaklegar - SA séu ávallt reiðubúin að til uppbyggilegs samstarfs við verkalýðshreyfinguna. Þetta kemur fram í fréttabréfi frá forstöðumanni samskipta Samtaka atvinnulífsins.

Í ályktun stéttarfélagsins Framsýnar, sem hlekkjuð er hér að ofan, segir að Samtök atvinnulífsins þegi meðan kjarasamningsbrot og skattaundanskot í bæði ferðaþjónustu og byggingariðnaði komi aftur og aftur upp á borð eftirlitsmanna.

Samtök atvinnulífsins segjast gagnrýna þessi téðu skattaundanskot og kjarasamningsbrot harðlega og að þau starfi með stjórnvöldum til þess að stemma stigu við slíkum brotum. Þá hafi samskipti verkalýðshreyfinganna við SA verið nær eingöngu gegnum upphrópanir í fjölmiðlum.

Þó beri SA ekki að sinna opinberu eftirliti heldur sé það hlutverk stofnana á borð við Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra og Vinnueftrlitið auk annarra eftirlitsaðila. Þeim sé fyllilega treystandi til að hafa eftirlit með starfandi fyrirtækjum.