Samtök verslunar og þjónustu sendu frá sér fréttatilkynningu eftir ársfund samtakanna í dag. Í fréttatilkynningunni er fjallað um helstu viðfangsefni fundarins, en samtökin virðast almennt ósátt við vaxtastig á Íslandi.

Á fundinum sagði Margrét Sanders, formaður SVÞ m.a.:

„Þrátt fyrir batnandi umhverfi er snýr að tollum og vörugjöldum þá eru vextir ógnun við íslenskt atvinnulíf. Ef horft er til OECD og BRIC ríkja þá eru raunvextir á Íslandi einna hæstir, svipar til vaxtastigs í Rússlandi – er það landið sem við viljum bera okkur saman við?,“

Margrét sagði enn fremur að samkeppnin hafi aldrei verið jafn mikil, á sama tíma og verslun er að aukast þá er samkeppnin orðin harðari. „Þjónustufyrirtæki og verslunareigendur verða að varða veginn til að efla samkeppnishæfni sína og mæta þörfum nýrrar kynslóðar sem kýs að versla á netinu.“

Á fundinum var einnig kynnt ný greining Hagfræðideildar Landsbankans á stöðu verslunar og þjónustu í tengslum við ársfund SVÞ. Þar kemur meðal annars fram að einkaneysla hafi aukist í takti við aukinn kaupmátt og að það stefni í lengsta vaxtarskeið einkaneyslu hér á landi.

Í greiningu bankans kemur fram að hagvöxturinn sé ekki knúinn áfram af óhóflegri skuldsetningu heldur sýna tölur það að skuldir heimila og fyrirtækja hafa farið lækkandi undanfarin ár. Álagning í smásölu hefur lítið breyst undanfarin ár en fer lækkandi í heildverslun.