Á fundi borgarstjórnar í gær gagnrýndu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harðlega að 11 dögum fyrir kosningar hafi bæklingi um húsnæðismál verið dreift í öll hús í borginni á kostnað skattgreiðenda í Reykjavík. Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að um misnotkun á almannafé sé að ræða.

Segir hún augljóslega sé um áróðursbækling að ræða sem eigi að breiða yfir neyðarástandið í húsnæðismálum sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata beri ábyrgð á.

„Það er svo augljóst mál að um er að ræða áróður í aðdraganda alþingiskosninganna enda eru húsnæðismálin eitt af kosningamálunum og hér er ekkert annað en um misnotkun á almannafé að ræða í pólitískum tilgangi” segir Marta.

Almannafé notað til kynninga í umdeildu kosningamáli

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kröfðust svara um málið á borgarstjórnarfundinum í gær þar sem óskað var eftir svörum við því hver kostnaðurinn við þennan bækling hefði verið.

„Í dag, ellefu dögum fyrir Alþingiskosningar, lætur Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, dreifa fjörutíu blaðsíðna riti á öll heimili í Reykjavík með áróðri um húsnæðismál sem er eitt helsta kosningamálið í komandi kosningum,“ segir í fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna málsins á borgarstjórnarfundi í gær.

„Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð enda er með öllu ótækt að borgarstjóri noti almannafé í pólitískum tilgangi með slíkum hætti. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað við þennan kosningabækling."

Fá ekki svör um kostnað við bæklinginn

Marta segir því miður líklegt að fyrirspurninni verði ekki svarað fyrr en eftir alþingiskosningar. „Við fengum engin svör á fundinum um kostnaðinn,“ segir Marta en á fundinum sagði hún bæklinginn vera sama sjónarspilið og hafi verið í gangi allt kjörtímabilið.

„Glærukynningar Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um uppbyggingu eru kynntar og hafa litlu skilað því fólk býr ekki í glærum eða áætlunum. Gallinn við þessar kynningar og glærur eru að þær skila sér ekki í lausnum fyrir þá sem eru húsnæðislausir og vilja koma sér upp þaki yfir höfuðið.“

Uppbyggingaráætlanir ekki staðist

Bendir Marta á að enn vanti 5000 íbúðir til að uppfylla þörf og 1500 íbúðir þar að auki árlega til að halda í eðlilega fólksfjölgun.  „Það segir sína sögu að uppbyggingaráætlanir meirihlutaflokkanna í Reykjavík hafa ekki staðist því að 70% nýrra íbúa á höfuðborgarsvæðinu var á árunum 2013-2017 skráðir í öðru sveitarfélagi en Reykjavík,” segir Marta.

„Nú á að breiða yfir það neyðarástand sem ríkir í húsnæðismálum sem Samfylking, Vinstri græn, Píratar og Björt framtíð í borginni bera ábyrgð á með því að senda út áróðursbækling nokkrum dögum fyrir kosningar á kostnað almennings.“