Ragna Sigurðardóttir kosningastjóri Samfylkingarinnar segir að flokkurinn hafi ekki vitað af því að búið væri á bak við flennistórar auglýsingaplaggöt með andlitsmynd af borgarstjóra. Auglýsingaspjöldin voru tekin niður eftir að hafa hangið uppi í nokkra daga eftir kvörtun barst frá íbúa í húsinu segir Fréttablaðið .

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson borgarstjóra og oddvita Samfylkingar vegna auglýsinganna sem teknar voru niður af hornhúsi á gatnamótum Miklubrautar og Lönguhlíðar. Í húsinu þar sem áður var blómabúð eru nú ósamþykktar íbúðir en húsnæðið er í eigu stuðningsmanns borgarstjórans sem lét hann fá auglýsingaplássið ókeypis.

Jón Magngeirsson er eigandi húsnæðisins en hann gaf auglýsingaplássið til að styrkja framboðið, nú líkt og fyrir fjórum árum. Þar var einnig auglýsing frá Tryggingamiðstöðinni sem einnig var tekin niður vegna kvartana.

„Þarna á bakvið eru stúdíóíbúðir. Þær fást auðvitað ekki samþykktar og ég borga því af þessu eins og um fyrirtæki sé að ræða,“ segir Jón sem segir íbúana hafa verið sama um auglýsingarnar. Kosið er til borgarstjórnar á laugardaginn komandi, 26. maí.