Um 20% færri ársreikningar hafa borist ársreikningaskrá Skattsins nú heldur en á sama tímabili í fyrra samkvæmt nýjustu tölum. Hefur þetta vakið upp verulegar áhyggjur innan raða ársreikningaskrár sem hafa viðrað áhyggjur vegna þessa við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þetta kemur fram í svari frá Skattinum við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvort COVID-19 faraldurinn hafi hægt á ársreikningaskilum fyrirtækja.

Segist Skatturinn hafa heyrt bæði frá endurskoðendum og öðrum fagaðilum að kórónuveirufaraldurinn hafi haft veruleg áhrif á þeirra vinnu enda hafi endurskoðun að stóru leyti lagst niður á tímabili í vor þegar ástandið var sem verst. Eðlilega hafi þetta ástand sem skapaðist haft áhrif á vinnu við uppgjör og endurskoðun eða eftir atvikum staðfestingu skoðunarmanna.