„Singles Day“, tilboðsdagur netverslana sem kenndur er við einhleypa og fer fram um víða veröld þann 11. nóvember ár hvert, nýtur nú vaxandi vinsælda hér á landi en Pósturinn hefur tekið saman fjölda sendinga sem bárust í kjölfar dagsins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Tóku margar íslenskar netverslanir þátt í deginum síðasta laugardag og buðu þá vörur með afslætti og samkvæmt fyrstu tölum þá hefur orðið töluverð aukning milli ára og heildarfjöldi sendinga aukist um rúm 50%, í samanburð við umsvifin þann 11. nóvember í fyrra.

Þetta er í takti við vinsældir dagsins á alþjóðavísu, en víðast hvar voru sölumet slegin. Ekki eru birtar heildartölur yfir sölu kínverskra netverslana en sú stærsta þeirra og sú sem ber líklega mesta ábyrgð á því að gera þennan dag að svo stórum tilboðsdegi í netheimum, Aliexpress, segir að salan í gegnum vefsíðu fyrirtækisins á þessum eina degi hafi verið 40% meiri í ár en í fyrra.

Bætist ofan á svarta föstudaginn og alnets mánudaginn

Pósturinn spáir því að sendingar erlendis frá verði orðnar tvöfalt fleiri eftir þrjú ár, en þeir sem ekki náðu að nýta sér tilboðin síðasta laugardag þurfa ekki að örvænta. Framundan eru tveir góðkunnir tilboðsdagar í netverslunum landsins, sem og um allan heim. Í næstu viku er komið að hinum svokallaða svarta föstudegi eða „Black Friday“ sem markar víða upphaf jólaverslunar.

Aðeins þremur dögum síðar, þann 27. nóvember, er síðan komið að því sem mætti kalla alnets-mánudagurinn eða „Cyber Monday“ en báða þessa daga bjóða netverslanir mikla afslætti sem margir nýta sér, til dæmis við jólagjafakaup.

Stóraukin innkaup Íslendinga í netverslunum eru þó ekki aðeins bundin við þessa þrjá tilboðsdaga því mikil aukning í pakkasendingum hefur verið gegnumgangandi allt þetta sem og undanfarin ár. Ekkert lát virðist vera á en Pósturinn spáir því að sendingar erlendis frá muni tvöfaldast á næstu þremur árum og einnig er spáð að innlend netverslun haldi áfram að vaxa.

Vésteinn Viðarsson, vörustjóri hjá Póstinum segist hafa orðið vitni að stóraukinni netverslun á Íslandi síðustu mánuði. „Þessi aukning í sölu íslenskra netverslana á „Singles Day“ um 50% er ágætis vísbending um að innkaupavenjur Íslendinga séu að taka stórfelldum breytingum,“ segir Vésteinn.

„Dæmi eru um að sala hjá einstökum netverslunum sem tóku þátt síðasta laugardag hafi vaxið um hundruð prósent á milli ára. Við vitum að fólk sem á börn er líklegast til að versla á netinu miðað við kannanir en að sjálfsögðu eru aðrir mjög duglegir og fjölbreytileiki hópsins er mikill.

„Singles day“ er orðinn stærsti stórútsöludagur í netverslun í heiminum og það verður gaman að sjá hvernig þróun verður næstu árin. Upphaflega sagan á bakvið daginn er sú að nokkrir kínverskir háskólastúdentar hafi ákveðið að halda upp á sig þennan dag, 11/11, og kaupa sér eitthvað fallegt sem eins konar mótvægi við Valentínusardaginn þar sem elskendur gefa hvor öðrum gjafir. Dagsetningin var svo valin vegna þess að hún lítur út eins og fjórir einstaklingar.“