Allrahanda GL, rútufyrirtæki sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Grayline hér á landi, lagði fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar í HR 3. mars á þessu ári og fékk samþykkta greiðslustöðvun 6. apríl. Frá því að félagið lagði fram beiðnina í byrjun mars hefur það selt fasteign sína að Klettagörðum 4.

Kaupandinn var Festi fasteignir ehf., fasteignaþróunarfélag í eigu Festi hf., móðurfélags N1, Krónunnar og Elko. Söluverðið var 900 milljónir króna og samhliða sölunni var gerður leigusamningur á milli AGL og Festi fasteigna um leigu á hluta fasteignarinnar, en stærstur hluti hennar verður nýttur af öðrum aðilum.

Greiða Landsbankanum hundruði milljóna

Meirihluta söluandvirðisins var ráðstafað til Landsbankans, stærsta kröfuhafa félagsins. Þannig greiddi félagið veðskuld hjá bankanum upp á 500 milljónir króna og tryggingarbréf að fjárhæð 243 milljónir króna. Félagið greiddi auk þess 55 milljóna forgangskröfur gagnvart lífeyrissjóðum sem voru með gjaldþrotaskiptabeiðnir á hendur félaginu. Félagið þurfti nauðsynlega að greiða kröfurnar og losa sig við þær til að geta óskað greiðslustöðvunar.

Eftir sem fyrr er Landsbankinn enn langstærsti kröfuhafi félagsins. Bankinn er með veð í öllum bílaflota og viðskiptakröfum og innistæðum á bankareikningum. Náist samkomulag á milli bankans og félagsins um uppgjör á veðkröfum munu standa eftir 505 milljónir sem færast úr veðkröfum í samningskröfur hjá bankanum, að því er kemur fram í glærukynningu sem kynnt var kröfuhöfum og Viðskiptablaðið hefur undir höndunum.

Samtals verða samningskröfurnar 914 milljónir króna, þar af skuldir við almenna kröfuhafa utan bankans tæpar 409 milljónir króna, ef tillögur um uppgjör veðkrafna ná fram að ganga.

Kröfuhafar fái 30% til baka

Fyrirhugað er að leggja til í nauðasamningsfrumvarpi AGL að allir kröfuhafar AGL fái greiðslu krafna sinna allt að fjárhæð 50-100 þúsund krónur. Það yrði þá „gólf" í nauðasamningnum og veldur því að verulega fækkar í hópi þeirra sem eru með atkvæðisrétt, en samtals 183 kröfuhafar eiga nú virkar kröfu á hendur félaginu. Þeir kröfuhafar sem ekki falli undir „gólfið" fá þá atkvæðisrétt um það hvort fyrirhugað frumvarp um nauðasamning verði samþykkt eða ekki.

AGL hefur lagt til að bjóða eftirstandandi kröfuhöfum 30% greiðslu af höfuðstól samningskrafna, að því er kemur fram í glærukynningunni. Til að samningurinn gangi í gegn þurfa því 70% kröfuhafa, sem lýsa kröfum í nauðasamninginn, að samþykkja hann, bæði að magni krafna en einnig eftir höfðatölu.

Landsbankinn er með stóran hluta af kröfumagni og hefur því mikið um það að segja hvort komi til nauðasamninga. En eins og áður segir þarf fjöldi kröfuhafa einnig að vera 70%, þannig að þótt kröfumagnið nái umfram 70% þarf fleiri kröfuhafa til svo nauðasamningurinn geti komist á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .