Hæstráðendur hjá nokkrum skráðum bandarískum fyrirtækjum virðast hafa selt bréf sín í eigin félögum á hárréttum tíma. Alls seldu þeir bréf fyrir 9,2 milljarða Bandaríkjadollara frá byrjun febrúar og þar til undir lok síðustu viku. Jeff Bezos, forstjóri Amazon, var langstórtækasti seljandinn með 3,4 milljarða dollara sölu á hlutum í Amazon í byrjun febrúar.

Þannig virðast þessir nokkrir helstu forstjórar og framkvæmdastjórar hafa komist hjá tapi að andvirði 1,9 milljarða dala, eða sem nemur ríflega 266 milljörðum íslenskra króna samkvæmt samantekt WSJ , á sama tíma og S&P 500 hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 30% frá hámarki sínu 19. Febrúar til loka viðskipta 20. Mars síðastliðinn.

Tók fjölmiðillinn saman ríflega 4.000 flöggunarskyld viðskipti sem framkvæmd voru milli 1. febrúar til 19. mars hjá æðstu yfirmönnum fyrirtækja á bandarískum hlutabréfamörkuðum. Tapið sem viðkomandi aðilum tókst að komast hjá byggja á muninum milli söluandvirðisins og verðsins á föstudaginn 20. mars síðastliðinn.

Af flöggunarskyldum innherjum var Jeffrey Bezos eins og áður segir langstórtækastur, en hann komst hjá tapi að fjárhæð 317 milljón dala samkvæmt þessum útreikningum, það er ef hann hefði haldið í hlutina sem hann seldi fram yfir síðasta föstudag.

Þó eru engar vísbendingar sagðar um að þeir hafi nýtt sér innherjaupplýsingar heldur var hlutabréfaverð í hæstu hæðum í febrúar og forsvarsmenn fyrirtækja selja oft snemma á árinu af bæði skattalegum og öðrum ástæðum. Sala þessara aðila var þó þriðjungi meiri en á sama tíma síðustu tvö ár á undan.

Salan Bezos nam þriðjungi heildarfjárhæðinnar nú, en hún nam 3% af hlut Bezos í Amazon, og seldi hann fyrir svipað mikið í fyrstu vikunni í febrúar og hann seldi síðustu tólf mánuði þar áður. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Bezos smátt og smátt verið að minnka hlut sinn í félaginu sem hann stofnaði og stýrir, meðal annars til að fjármagna uppbyggingu geimferðafélags síns Blue Origin , og góðgerðarstarfsemi ýmis konar.

Hér má sjá fleiri fréttir um sölu hlutabréfa í Amazon: