Rekstrartekjur kaffihúsakeðjunnar Te og kaffi námu 1,8 milljarði króna í fyrra. Kostnaðarverð seldra vara nam 569 milljónum og framlegð því rúmum 1,2 milljörðum. Launakostnaður nam 728 milljónum og annar rekstrarkostnaður 316 milljónum.

EBITDA nam því 192 milljónum og endanlegur hagnaður 19,3 milljónum. Eignir í lok síðasta árs námu rúmum 900 milljónum, skuldir 827 milljónum og eigið fé því 74 milljónum og eiginfjárhlutfall 8,2%. Veltufjárhlutfall var 1,53.

Greidd laun námu 611 milljónum og ársverk voru 122. Meðallaun voru því 417 þúsund krónur á mánuði. Enginn arður var greiddur út á árinu. Þann 1. janúar 2017 sameinuðust Kaffiveröld ehf. og KH innflutningur ehf. við Te og kaffi hf. Samanburður við fyrra ár gæfi því misvísandi mynd og honum var þar af leiðandi sleppt.