Lyfjaframleiðandinn Pfizer gerir ráð fyrir að selja COVID-19 bóluefni fyrir 15 milljarða dala á þessu ári, en félagið þróaði bóluefnið í samstarfi við þýska líftæknifyrirtækið BioNTech. BBC greinir frá.

Bóluefnið var með þeim fyrstu til að fá samþykki frá heilbrigðisyfirvöldum í Evrópu og Bandaríkjunum. Bóluefnasalan mun, ef áætlanir Pfizer standast, standa undir um fjórðungi af tekjum félagsins.

Pfizer er að gera allt sem í sínu valdi stendur til að afhenda 2 milljarða skammta af bóluefninu á þessu ári, eins fljótt og auðið er. Líkt og mikið hefur verið fjallað um hafa hin ýmsu lönd á heimsvísu keppst sín á milli um að tryggja sér samninga um afhendingu bóluefnis frá Pfizer.

Greinendur reikna sömuleiðis með að Moderna, einn helsti samkeppnisaðili Pfizer, muni selja bóluefni fyrir milljarða dala á þessu ári.