Í sumar fékk sprotafyrirtækið Feed the Viking inn alþjóðlegan englafjárfesti með tengingar inn á markaði í Bandaríkjunum og Norðurlöndunum. Jafnframt tvöfaldaði félagið vöruúrval sitt með því að hefja framleiðslu á annars vegar Fish Jerky með hvítum Cheddar osti og hins vegar þurrmat úr íslensku lambi og fisk.

Félagið réð nýlega til sín Daníel G. Daníelsson og gegnir hann stöðu sölu- og markaðsstjóra innan þess.

Viðskiptablaðið sagði frá því fyrir um einu og hálfu ári síðan hvernig hugmyndin að félaginu kviknaði hjá stofnandanum, Friðriki Guðjónssyni þegar hann var í útkalli fyrir Hjálparsveit Skáta og þurfti að koma orkumiklum mat ofan í menn sem höfðu örmagnast upp á heiði og kom hann þá þurrkuðu kjöti, svokölluðu jerky frá Bandaríkjunum, ofan í þá sem gaf þeim næga orku.

Á þeim tíma var ekkert íslenskt Jerky til og hóf Friðrik ásamt Ara Karlssyni, matreiðslumeistara, að þróa uppskriftir að loftþurrkuðum kjöt- og fiskafurðum úr íslensku lambi, nauti og þorski - svokallað Jerky. Jafnframt tóku þeir þátt í nýsköpunarhraðlinum Til sjávar og sveita sem snýst um frumkvöðlavinnslu úr afurðum hafs og lands .

Harðfiskur - fish jerky
Harðfiskur - fish jerky
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Harðfiskurinn undir vörumerkinu Fish Jerky vinsæll í Bandaríkjunum

Félagið segir að vörur undir vörumerkinu Feed the Viking hafi fengið góðar viðtökur í Norður-Ameríku og er vinsælasta varan þar Fish Jerky sem er íslenskur harðfiskur skorinn í þægilega munnbita. Hátt próteininnihald og hreinleiki vörunnar hefur meðal annars vakið athygli bandarískra foreldra barna sem eiga við próteinskort að etja.

Þetta varð kveikjan að því að félagið hóf þróun á bragðbættum harðfiski og er Cheddar útgáfan að koma vel út, bæði hvað varðar lykt og bragð sem minnir um margt á harðfisk með smjöri.

Stofnuðu marga nýja flokka við mat á þurrkuðu lambakjöti

Nýlega fékk varan Lamb Jerky tíu af tíu mögulegum í einkunn fyrir bæði bragð og útlit umbúða hjá kanadíska hópnum Jerky Ingredients. Við mat hópsins á yfir 800 tegundum hafa aldrei verið stofnaðir jafnmargir nýir flokkar (e. tags) við mat þeirra á Lamb Jerky en það gefur til kynna hve einstakt íslenska lambið er á alþjóðavísu.

Markmið Feed the Viking er að auka virði íslenskra matvæla og eru vörur fyrirtækisins að finna hér á landi í öllum helstu matvöruverslunum ásamt fjölmörgum ferðamannastöðum, gististöðum, útivistarbúðum og hálendisskálum. Félagið segir að vörurnar hafi slegið í gegn hjá Íslendingum og erlendum ferðamönnum sem sækja landið heim.

Að því er fram kemur í fréttatilkynningu áttu vörur fyrirtækisins jafnframt eina bestu byrjun í sögu Duty Free á Keflavíkurflugvelli og eru vörurnar einnig til sölu á Kastrupflugvelli, á vefverslun Amazon í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Svíþjóð og Þýskalandi auk netverslunar .

Feed the Viking beef jerky
Feed the Viking beef jerky
© Aðsend mynd (AÐSEND)