Eignarhaldsfélagið VGJ ehf, sem var sjöundi stærsti eigandinn í HB Granda með 5,01% hlut hefur selt 10 milljón hluti í félaginu að því er fram kemur í flöggun í kauphöllinni.

Miðað við gengi bréfa í félaginu við lokun markaða, 30,30 krónur á hlut, gefur þetta eigendum eignarhaldsfélagsins 303 milljónir króna í aðra hönd. Félagið á enn sem komið er 4,477% hlut í HB Granda.

Eignarhaldsfélagið eignaðist hluta í HB Granda við samruna Vignis G. Jónssonar hf. á Akranesi við HB Granda árið 2013 en eigendum félagsins var greitt fyrir með útgáfu nýrra hluta í HB Granda. Eignarhaldsfélag VGJ ehf. er að langstærstum hluta í eigu Eiríks Vignissonar.