Hlutabréf Marel voru tekin til viðskipta með pompi og prakt í kauphöllinni í Amsterdam síðastliðinn föstudag. Skráningarinnar hafði verið beðið með nokkurri eftirvæntingu eða allt frá því að Marel greindi frá því í mars á síðasta ári að félagið stefndi að skráningu í erlenda kauphöll til viðbótar við íslensku kauphöllina.

Kauphöllin í Amsterdam er sú elsta í heiminum en sögu hennar má rekja til ársins 1602 þegar hún var stofnuð af hollenska Austur-Indíafélaginu. Með skráningunni varð Marel 132. fyrirtækið sem skráð er í kauphöllina sem er hluti af Euronext-samstæðunni en auk Amsterdam rekur félagið kauphallir í París, Brussel, Lissabon og Dublin auk þess sem sameiningarviðræður standa nú yfir með kauphöllinni í Osló. Samtals eru yfir 1.300 fyrirtæki skráð á mörkuðum Euronext og nam markaðsvirði þeirra um 3.800 milljörðum evra um síðustu áramót.

Hæg byrjun á árinu

Skráning Marel var sú fyrsta í Amsterdam á þessu ári en að sögn forstjóra kauphallarinnar, Maurice van Tilburg, hefur árið almennt farið rólega af stað varðandi skráningar (e. IPO). „Ef við lítum á Evrópu í heild sinni þá hefur verið lítið um skráningar það sem af er ári. Árið í ár hefur byrjað rólega þar sem horfur á markaði eru nokkuð óskýrar á þessum tímapunkti. Það kemur til af nokkrum þáttum eins og Brexit, viðskiptadeilum milli Bandaríkjanna og Kína auk þess sem markaðir lækkuðu talsvert í lok síðasta árs sem varð til þess að einhverjir fjárfestar töpuðu fjármunum og gert það að verkum að fjárfestar hafa orðið ögn meira hikandi.

Marel er fyrsta skráningin hjá okkur í ár en tilkynnt hefur verið um tvær skráningar til viðbótar seinna á árinu. Í Frakklandi hafa farið fram nokkrar litlar skráningar á þessu ári en sem dæmi engar í Þýskalandi, svo það má segja að þetta sé hæg byrjun. Við höfum hins vegar séð þetta gerast í gegnum árin. Venjulega er meira um skráningar á fyrri hluta ársins. Það hefur hins vegar verið rólegt í ár en ef flökt (e. volatility) verður á markaðnum þá munum við mögulega sjá fjárfesta snúa til baka á seinni hluta ársins.

Að sögn Van Tilburg er hann ánægður með hvernig til tókst við skráningu Marel. „Það sem við höfum séð undanfarið í Evrópu er að félög eins og Marel ná árangri við skráningu þar sem þau eiga mjög sterka sögu. Félagið þekkir nú þegar hluthafa sína og þekkir verðlagningu bréfanna. Á þessari stundu er markaðurinn meiri kaupendamarkaður (e. buyers market) sem þýðir að verðið er ekki sett af útgefendum bréfanna heldur þurfa þeir að líta til þess hvað markaðurinn er tilbúinn að greiða. Þetta átti hins vegar ekki við í tilfelli Marel þar sem félagið var með fulla tilboðsbók og útboðið leit allt vel út.“

Seljanleiki skiptir máli

Óhætt er að segja að kauphöllin í Amsterdam sé alþjóðlegur markaður en 95% af hlutafé skráðra fyrirtækja eru í eigu alþjóðlegra fjárfesta. „Það er að verða mun algengara að seljanleiki (e. liqutidy) skipti máli. Hann skiptir ekki bara máli við skráningu heldur einnig þegar fyrirtæki eru að safna nýju fjármagni fyrir frekari fjárfestingar og yfirtökur. Kauphöllin í Amsterdam getur því keppt við aðrar stórar kauphallir því við höfum seljanleikann til staðar. Við erum með mjög alþjóðlegan hóp af fjárfestum en um 95% þeirra eru frá löndum fyrir utan Holland en þeir eru meðal annars frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Norðurlöndunum og Sviss.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .