Af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er staðan langbest í Seltjarnarnesbæ. Bærinn skuldaði 1,8 milljarða króna um síðustu áramót, eða um 400 þúsund krónur á hvern íbúa, og skuldviðmiðið stóð í 10%.

Næstbest var staðan í Garðabæ, sem skuldaði 11 milljarða eða ríflega 700 þúsund á hvern íbúa. Skuldaviðmiðið í Garðabær var 63% um áramótin síðustu. Í Mosfellsbæ var skuldaviðmiðið 108%. Bærinn skuldaði 11,2 milljarða króna, sem er rúmlega 1,1 milljón á hvern íbúa. Eins og áður hefur komið fram var skuldaviðmiðið í Hafnarfirði 148%. Hafnarfjarðarbær skuldaði 39,2 milljarða króna, sem jafngildir tæplega 1,4 milljónum á íbúa. Skuldaviðmiðið í Kópavogi var 146% um síðustu áramót. Bærinn skuldaði 44 milljarða króna eða ríflega 1,2 milljónir króna á hvern íbúa.

skuldaviðmið 2016
skuldaviðmið 2016

Reykjavík er svolítið sér á báti. Þar var skuldviðmiðið 85% um síðustu áramót en heildarskuldir og skuldbindingar námu 290,5 milljörðum króna sem jafngildir því að hver íbúi skuldi tæplega 2,4 milljónir. Skuldir á hvern íbúa eru einungis hærri í þremur sveitarfélögum en það eru Reykjanesbær, Norðurþing og Fljótsdalshérað.

Ástæðan fyrir lágu skuldaviðmiði Reykjavíkurborgar er að í reglugerð er ákvæði, sem heimilar að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki við útreikningana en borgin á tæplega 94% hlut í Orkuveitu Reykjavíkur. Skuldahlutfall Reykjavíkurborgar,þegar tekjum er deilt í skuldir og skuldbindingar, er aftur á móti 187% og er þetta hlutfall einungis hærra í Reykjanesbæ og Fljótsdalshéraði.

Þegar reiknað er út skuldaviðmið allra sveitarfélaganna þá er það 103% en skuldahlutfallið er 153%.

þróun íbúafjölda
þróun íbúafjölda

Mikil íbúafjölgun á Suðurnesjum

Nokkuð áhugavert er að skoða þróun á íbúafjölda sveitarfélaganna frá 1. janúar 2016 til 1. janúar 2017. Þegar það er gert kemur í ljós að staðan hjá tveimur af þeim sveitarfélögum, sem glíma við hvað mesta fjárhagsvandann, er jákvæð. Íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði um 7,3% á þessu tímabili og íbúum Sandgerðisbæjar um 8,3%. Yfir landið allt fjölgaði íbúum um 1,8%.

Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallslega mesta fólksfjölgunin í Garðabæ eða 3,5%. Í Kópavogsbæ og Mosfellsbæ fjölgaði íbúum um 3,2%. Íbúum Hafnarfjarðar fjölgaði um 1,8%, íbúum á Seltjarnarnesi um 0,8% og Reykjavíkurborg rekur lestina með 0,6% fjölgun á tímabilinu. Hugsanlega má setja þennan mun milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í samhengi við lóðaúthlutanir, íbúðaframkvæmdir og húsnæðisverð. Þau sveitarfélög sem hafa staðið sig verst í þeim málum eru einmitt Reykjavík og Hafnarfjörður. Seltjarnarnes á lítið byggingarland.

Enn fremur er freistandi að setja mikla íbúafjölgun á Suðurnesjum í samhengi við þróun húsnæðismarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu. Og ekki bara á Suðurnesjum því í Árborg fjölgaði íbúum um 3,2%, Í Ölfusi um 2,5% og á Akranesi um 2,1%, svo dæmi séu tekin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .