Danny Burton, framkvæmdastjóri Iceland Seafood UK, seldi í dag hlutabréf í Iceland Seafood International (ISI) fyrir 113,7 milljónir króna. Alls seldi hann ríflega 7,7 milljónir hluta á genginu 14,72 rétt fyrir ellefu leytið, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Eftir viðskiptin á hann enn tæplega 15,4 milljónir hluti í félaginu að andvirði 227 milljóna króna miðað við kaupgengið. Einnig á hann kauprétt að 685 þúsund hlutum til viðbótar.

Burton stýrði Havelok, dótturfélagi Iceland Seafood í Bretlandi, sem sameinaðist svo Iceland Seafood Barraclough í desember í fyrra. Burton var ráðinn framkvæmdastjóri hins sameinaða félags sem fékk nafnið Iceland Seafood UK.