Carbon Recycling International (CRI), sem framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni, gerði í vikunni samning við efnafyrirtækið Johnson Matthey (JM). JM er rótgróið breskt fyrirtæki, sem stofnað var fyrir meira en 200 árum.

Það er leiðandi á heimsvísu á sviði efnahvata og tækni til efnaframleiðslu en efnahvatar gegna lykilhlutverki í nær allri framleiðslu á efnavörum. Rúmur helmingur af öllum efnaverksmiðjum sem framleiða metanól á heimsvísu byggja á efnahvötum og tækni frá JM.

CRI og JM hafa verið í samstarfi í meira en áratug en nýi samningurinn gerir CRI mögulegt að bjóða sína tæknilausn í samstarfi við JM. Breska fyrirtækið á rætur sínar í góðmálmum, sem oft eru mikilvæg hráefni í efnahvata. Um 14 þúsund manns starfa hjá fyrirtækinu, sem velti 14,6 milljörðum punda á síðasta ári. JM er skráð á hlutabréfamarkaðinn í London og er í bresku FTSE 100 vísitölunni.

Eins og greint hefur verið frá þá stefnir CRI að skráningu á Euronext Growth markaðinn í Osló á 4. ársfjórðungi yfirstandandi árs. Norski vefmiðillinn E24 greindi frá því á dögunum að CRI stefni að 30 til 50 milljóna dollara hlutafjáraukningu en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er líklegra að félagið sæki sér 20 til 30 milljónir dollara eða 2,6 til 3,9 milljarða króna.

Í viðtali í Viðskiptablaðinu í mars sagði Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI, að Euronext Growth væri ákjósanlegur markaður fyrir CRI, þar sem skráningar á „grænum“ fyrirtækjum hefðu gengið vel á þeim markaði.