Viðbúið er að sérbýli muni smátt og smátt víkja fyrir þéttari byggð á stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins samhliða vaxandi borgarvæðingu þegar fram líða stundir. Þorri slíkra eigna verði í útjaðri byggðar og verðmunurinn í samanburði við fjölbýli gæti aukist töluvert.

Hlutfallslega hefur lítið verið byggt af sérbýli síðustu ár, sem hefur hækkað nokkuð meira en fjölbýli frá því að faraldurinn skall á.

Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir flokkana tvo hafa hækkað svolítið á víxl, fjölbýli stundum hraðar og öfugt. „Það er kannski erfiðara að anna þeirri eftirspurn. Bæði tekur sérbýli meira pláss og er mun dýrara í byggingu á hvern íbúa.“

Sjá einnig: Svig­rúm fyrir auknum byggingakostnaði

Til lengri tíma litið sé hins vegar erfitt að sjá fyrir sér að sérbýli verði jafn stór hluti af ásýnd borgarinnar og verið hefur. „Ef maður horfir bara á hvernig þessu er háttað erlendis þá er ekkert sjálfgefið að búa í sérbýli, og það er þá oftast aðeins í boði í fjarlægari úthverfum.“

Þó að um áratugi geti verið að ræða þar til þessi umbreyting raungerist að fullu, verði að telja líklegt að þegar fram líða stundir fari þessi aðgreining að verða sterkari. Sérbýli hafi verið byggt í bland við fjölbýli víðast hvar í borginni og verið raunverulegur valkostur fyrir flesta hingað til, enda borgin verið afar dreifbýl í alþjóðlegum samanburði. Eftir því sem höfuðborgarsvæðið verði að meiri borg fylgi verði hins vegar sífellt meiri þrýstingur á að sérbýlin færist utar.

„Ég held að þau verði ekki á færi annarra en vel efnaðs fólks, og það að búa í sérbýli innan höfuðborgarsvæðisins sem er ekki í útjaðri byggðar verði mikil lúxusvara.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .