Hagnaður röraframleiðslunnar Set ehf. margfaldaðist á árinu 2020 og nam 221 milljón króna miðað við 42 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBDITA) nam 302 milljónum króna og næstum þrefaldaðist frá árinu 2019 úr 124 milljónum. Velta félagsins nam 2.515 milljónum króna og óx um tæp 13% á tímabilinu.

Eigið fé félagsins nam 934 milljónum króna í árslok og heildareignir námu 1.941 milljón króna. Eiginfjárhlutfall félagsins var því um 48% og hækkar um 2% frá árinu áður. Meðalfjöldi starfsmanna var að meðaltali 70 og námu greiðslur til þeirra um 662 milljónum króna sem er lítil breyting frá árinu áður.

Handbært fé í lok árs var bókfært á 251 milljón króna miðað við 188 milljónir króna árið áður. Skuldir við tengda aðila lækkuðu um fimm milljónir króna. Enginn arður var greiddur út á árinu.

Fyrirtækið er í eigu Einars Elíassonar og barna hans en sjálfur átti Einar 65% hlut í árslok. Bergsteinn Einarsson er forstjóri Sets og á hann jafnframt 15% hlut í félaginu.