Fjárfestingar hins opinbera á sviði vegasamgangna námu 1% af landsframleiðslu - hefur þetta hlutfall verið lágt síðustu sex árin eða að jafnaði 0,9% af landsframleiðslu - en meðaltal fjárfesta hins opinbera á þessu sviði tvo áratugina þar á undan er 1,6%. Þetta skrifar Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, í pistli á vefsíðu samtakanna . Þar bendir hann enn fremur á að hagvöxtur síðustu ára hefur að stórum hluta verið byggður á samgöngum landsins.

„Þar sem náttúrufegurð er helsta aðdráttarafl ferðamanna þá hefur vexti ferðaþjónustunnar fylgt mikil aukning í umferð um vegi landsins og yfir brýr. Mikið hefur verið fjárfest í bílaflotanum en tæpur helmingur nýrra seldra bíla hér á landi hefur farið til bílaleiga. Er reiknað með að bílaleigubílar í landinu verði 26 þúsund í lok þessa árs eða ríflega fimm sinnum fleiri en þegar þessi uppsveifla ferðaþjónustunnar hófst fyrir um sex árum síðan. Einnig hefur verið fjárfest mikið í hópferðabifreiðum á þessum tíma. Mun minna hefur hins vegar farið fyrir fjárfestingum í vegum og brúm,“ skrifar hann.

Samgöngumál hafa setið á hakanum

Hann bendir á að þáttur samgöngumála hefur setið á hakanum og að vexti ferðaþjónustunnar hefur á þeim vettvangi ekki verið fylgt nægjanlega eftir með viðhaldi og nýjum fjárfestingum. Afleiðingin er meðal annars meiri tafir og minna umferðaöryggi með viðeigandi kostnað fyrir bæði ferðaþjónustuna og þjóðarbúið í heild.

Ingólfur skrifar að það sé ljóst að það þarf að gera betur á þessu sviði ef við ætlum að tryggja sem best öryggi í umferðinni fyrir allan almenning í landinu og byggja undir ferðaþjónustuna hér á landi þar sem ferðamenn fara héðan heilir á húfi og sáttir við dvöl sína. „Rekstur vegakerfis og uppbygging þess á að greiðast af mörkuðum tekjustofnun eða sköttum af bensíni og díselolíu. Auknar tekjur af umferð eru hins vegar ekki að skila sér til málaflokksins. Það hefur skapast mikil uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingar á þessu sviði undanfarin ár.  Til að stemma stigu við þessari þróun og skapa í leiðinni svigrúm fyrir frekari hagvöxt hér á landi þarf að setja innviðafjárfestingar á þessu sviði í forgang,“ skrifar hann að lokum.

Vegir og vegleysur SI
Vegir og vegleysur SI