Umboðsmaður Alþingis hefur vakið athygli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á stöðu starfsmannamála í sveitarfélögum landsins, meðal annars vegna svokallaðra lausnarlauna. Þetta kemur fram í nýbirtu áliti á vef umboðsmanns.

Á vef Viðskiptablaðsins í gær var sagt frá því að íslenska ríkið og eitt sveitarfélaga landsins hefðu verið dæmd til að þola viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu vegna höfnunar á umsókn kennara um starf hjá sveitarfélaginu. Téður kennari hafði farið í veikindaleyfi og fengið við það greidd svokölluð lausnarlaun. Hafði móttaka þeirra verið túlkuð svo að maðurinn afsalaði sér möguleika á ráðningu í slík störf til frambúðar. Það gekk ekki upp að mati héraðsdóms.

Mál umboðsmanns er nokkuð áþekkt. Í júlí á síðasta ári leitaði til hans kona sem hafði verið í 75% starfi hjá sveitarfélagi. Hún hefði hætt störfum árið 2014 vegna veikinda og tekið á móti lausnarlaunum. Í nóvember 2018 sótti konan um áþekkt starf hjá sveitarfélaginu og var þar gerð krafa um sömu menntun og konan hafði.

Sjá einnig: Ríkið bótaskylt vegna lausnarlauna

Engin var ráðinn í fyrra skiptið og starfið þá auglýst aftur. Tveimur dögum eftir síðari auglýsinguna hringdi starfmaður sveitarfélagsins í konuna og tjáði henni að hún „fengi aldrei aftur starf hjá sveitarfélaginu því [hún] hefði þegið lausnarlaun af þess hálfu“. Tölvupóstssamskipti konunnar og sveitarfélagsins staðfestu þetta með skriflegum hætti.

Í svari sveitarfélagsins við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að framkvæmdin byggði á túlkun Sambands íslenskra sveitarfélaga, það er að með því að taka á móti lausnarlaunum fyrirgerði fólk rétti sínum til að ráða sig í sambærilegt starf að nýju.

Í áliti umboðsmanns segir að afstaða sveitarfélagsins hafi hvorki byggt á lögum eða reglum sem gilda um starfsemi sveitarfélaga og hún ætti sér heldur ekki stoð í kjarasamningum. Sveitarfélagið hefði ekki kallað eftir frekari gögnum eða upplýsingum um hæfni konunnar til starfans, þar með talið heilsufarsupplýsingum hennar.

„Ég minni hér á þá reglu 75. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa en þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Að auki þurfa slíkar ákvarðanir stjórnvalds að vera í samræmi við réttmætisregluna og byggja þannig á málefnalegum sjónarmiðum. Það að fyrrverandi starfsmaður sveitarfélags hafi tekið við og staðfest móttöku á svonefndum lausnarlaunum í samræmi við ákvæði kjarasamnings, þar sem hann gat ekki lengur gegnt tilteknu starfi vegna heilsubrests, getur að mínu áliti ekki eitt og sér án skýrrar lagaheimildar og fullnægjandi rannsóknar á hinum heilsufarslegu ástæðum útilokað viðkomandi frá því að koma til greina í önnur störf hjá sveitarfélaginu,“ segir í áliti umboðsmanns.

Umboðsmaður mælist til þess að sveitarfélagið rétti hlut konunnar vegna framgöngu sveitarfélagsins. Þá beindi hann einnig tilmælum til Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins á því hvort tilefni sé til að taka framkvæmd starfsmannamála sveitarfélaganna til endurskoðunar.