Afkoma Arion banka á fyrsta fjórðungi ársins 2020 var um 6 milljarðar króna og reiknuð arðsemi á ársgrundvelli ríflega 12%, samkvæmt drögum að uppgjöri. „Afkoman er umtalsvert umfram fyrirliggjandi spár greiningaraðila“, segir í tilkynningu Arion til Kauphallarinnar.

Arion tapaði um 2,2 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs en hagnaðist um ríflega tvo milljarða á sama tímabili árið 2019.

Rekstrartekjur fjórðungsins nema um 13 milljörðum króna, þar af eru tekjur af kjarnastarfsemi (vaxtatekjur, þóknanatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi) ríflega 11 milljarðar króna og hækka um 4% frá fyrsta ársfjórðungi 2020. Vaxtatekjur hækkuðu lítillega milli ára. Rekstrarkostnaður fjórðungsins nemur ríflega 6 milljörðum króna og lækkar um 2,5% frá sama fjórðungi síðasta árs.

Stærsta breytingin milli ára liggur í virðisbreyting útlána sem var jákvæð um 1,1 milljarð króna á fyrsta ársfjórðungi 2021 en á sama tíma fyrir ári var virðisbreyting neikvæð um 2,9 milljarða króna og tengdist að mestu þeirri óvissu sem uppi var vegna COVID-19 faraldursins, sem þá var nýhafinn. Bankinn var rekinn með 2,2 milljarða króna tapi á fyrsta fjórðungi árið 2020.

„Jákvæða virðisbreytingu nú má einkum skýra með innágreiðslum á áður niðurfærð lán, meiri vissu um stöðu stórra viðskiptavina í kjölfar COVID-19 og breytingu á samsetningu lánabókar, þar sem hlutfall vel tryggðra íbúðalána hefur aukist á kostnað fyrirtækjalána.“

Lánabók bankans stækkaði um 1,7% á fyrsta fjórðungi ársins. Tekjuskattshlutfall fjórðungsins er tæplega 24% og afkoma af eignum til sölu er óveruleg.

Í tilkynningunni er þó tekið fram að áfram ríkir nokkur óvissa í starfsumhverfi bankans og þá fyrst og fremst tengd þróun COVID-19 faraldursins og þeim áhrifum sem faraldurinn kann að hafa á íslenskt efnahagslíf. Jafnframt er tekið fram að uppgjörið sjálft sé enn í vinnslu og kann því að taka breytingum fram að birtingardegi þann 5. maí næstkomandi.

Stærstu hluthafar Arion banka eru Gildi lífeyrissjóður með 9,1% hlut, Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 8,9% hlut og LSR með 8,5% hlut. Vogunarsjóðurinn Taconic Capital var í byrjun árs stærsti hluthafinn en hann hefur nú selt allan hlut sinn í bankanum .