Royal Dutch Shell mun niðurfæra um 22 milljarða dollara, eða um 3.061 milljarð íslenskra króna, af virði eigna félagsins. Fyrirtækið varar við því að kórónaveiran muni hafa langvarandi áhrif á eftirspurn orkuvara. Financial Times greinir frá .

Olíurisinn færði niður verðspár fyrir olíu og gas og hét því að „aðlagast til þess að tryggja að reksturinn verði áfram sterkur“. Fyrirtækið sagði að lægra verð muni leiða til virðisrýrnun eftir skatt á ófjármagnstengdum eignum um 15-22 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi. Hlutabréfaverð Shell hafa fallið um 2,3% það sem af er degi.

Sjá einnig: BP afskrifar 17 milljarða dollara

Í apríl síðastliðnum tilkynnti olíufyrirtækið að það myndi lækka arðgreiðslur í fyrsta skiptið frá seinni heimsstyrjöldinni eftir að hagnaður féll um helming eftir hrun í eftirspurn og verði orku. Shell tilkynnti í sama mánuði að það hyggst verða ná nettó-núll kolefnislosun fyrir árið 2050.

Fyrirtækið sagði fyrr í dag að það búist við að tunna af Brent hráolíu muni kosta um 50 dollara árið 2022 en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir 60 dollurum á tunnu. Sömuleiðis lækkar verðspá fyrir Henry Hub gasverð í Bandaríkjunum úr 3 dollurum niður í 2,5 dollara á hverja milljón BTU (British thermal unit). Shell gerir þó ráð fyrir að eftir 2023 mun verð til lengri tíma vera um 60 dollara fyrir olíu og 3 dollarar fyrir gas sem er í takt við fyrri spár.