Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir spurningu blaðamanns New York Times dæmi um að fólk reyndi að hafa áhrif á gang mála hér heima með því að breiða sögum í erlenda miðla.

„Pólítíkin tekur stundum á sig skondnar myndir,“ segir Sigmundur í nýrri stöðufærslu á facebook síðu sinni. „Erlendur blaðamaður spurði mig hvers vegna ég hefði nýverið yfirgefið sjónvarpskappræður án þess að taka í hendur andstæðinga minna.“

Sögum komið í erlenda fjölmiðla

Eina sem Sigmundi datt í hug að kynni að skýra spurninguna að hann hefði skroppið á salernið strax eftir sjónvarpsútsendinguna.

„Það var væntanlega þannig sem ég lenti í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að svara blaðamanni New York Times um salernisferðir mínar,“ segir Sigmundur sem segir þessu virðast fá takmörk vera sett og vísar í svipaðar umræður um notkun á erlendum fjölmiðlum í innanlandsdeilum.

„Fyrir skömmu var talsverð umræða um að sumir í pólitíkinni hér heima stunduðu það að reyna að koma sögum frá Íslandi í erlenda fjölmiðla til að hafa áhrif á gang mála hér heima.“

Sigmundur kemur með þá skýringu að eftir að hafa drukkið ótæpilega af vatni í tveggja tíma sjónvarpsútsendingu um daginn hafi hann þurft „að sinna brýnu erindi strax og útsendingu lauk (en kvaddi að því búnu alla sem ég rakst á með virktum).“