Sigríður Ásthildur Andersen dómsmálaráðherra segir það ekki koma sér á óvart að það sé niðurstaða umboðsmanns Alþingis að hún hafi ekki framið trúnaðarbrot er hún ræddi í trúnaði við forsætisráðherra um afgreiðslu tiltekinnar umsóknar um uppreist æru frá síðasta ári eins og hún orðar það.

Þetta kemur fram á facebook vegg hennar, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur umboðsmaður lýst því yfir að ekki sé tilefni til að gera frekari athugun á málinu. Hún segir ráðherra Bjartrar framtíðar ekki hafa eytt á sig einu símtali eftir atburðina og niðurstöðu umboðsmannsins. Jafnframt segir hún ráðherra Viðreisnar hafa reynt að villa um fyrir almenningi.

Eðlilegt að miklar tilfinningar fylgi umræðunni

„Ekkert af þessu kemur mér á óvart og ég get ekki annað en lýst ánægju minni með þessa niðurstöðu umboðsmanns,“ segir Sigríður sem ræðir jafnframt um hve eðlilegt það sé að því fylgi miklar tilfinningar að ræða um uppreist æru þeirra sem hafa brotið gegn börnum.

„Þegar slík beiðni um uppreist æru var lögð fyrir mig í byrjun maí og mér sagt að ekki væri annað í stöðunni en að skrifa undir sá ég að við svo búið gæti ekki staðið, skrifaði ekki undir og hóf þegar endurskoðun á þeim lagaákvæðum sem um uppreist æru gilda, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggst hún kynna frumvarp sitt um breytingar á fyrirkomulaginu á morgun.

Þetta fyrirkomulag særði réttlætiskennd mína enda finna allir til þegar rætt er um svo svívirðileg brot gegn minni máttar. Rétta leiðin í slíkri stöðu er að reyna að breyta kerfinu af yfirvegun og festu.“

Björt framtíð skorti nauðsynlega yfirvegun og ábyrgð

Sigríður segir að skyndiákvörðun Bjartrar framtíðar um að slíta ríkisstjórnarsamtals vegna eðlilegs trúnaðarsamtals hennar við forsætisráðherra sýni að þeir skorti fullkomlega þá yfirvegun og ábyrgð sem æðstu embættismenn eigi að temja sér.

„Ákvörðunin var ekki tekin með hagsmuni þjóðarinnar í huga,“ Segir Sigríður, en skoðanakannanir hafa sýnt aukið fylgi við Bjarta framtíð eftir upphlaupið en fyrri kannanir gáfu ekki til kynna að þeir fjölmörgu sveitarstjórnarmenn sem sitja í stjórn flokksins myndu halda vinnunni eftir kosningarnar í vor.

Segir ráðherrana ekki hafa eytt í sig einu símtali

„Viðbrögð Viðreisnar eru af sama toga, en sýnu verri að því leyti að með þeim reyndu ráðherrar Viðreisnar að villa fyrir um almenningi með brigslum um leyndarhyggju og yfirhylmingu, ekki bara af minni hálfu og forsætisráðherra heldur einnig starfsmanna stjórnarráðsins.

Þótt vika sé nú liðin frá þessu gönuhlaupi hafa ráðherrar Viðreisnar og Bjartar framtíðar ekki svo mikið sem eytt á mig einu símtali til að fara yfir málið. Jafnvel þó ekki væri til annars en að kynna sér hvernig sú vinna sem ég hóf í maí við endurskoðun laga um uppreist æru stendur.“