Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður Alþjóðasviðs Viðskiptaráðs Íslands. Sigrún Lilja er hagfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands með cand. merc. gráðu frá Viðskiptaháskólanum í Árósum. Frá ráðningunni er greint á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands.

Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins og var meðal stofnenda listahópsins Á vit... Þar áður vann Sigrún Lilja að samantekt skýrslu um Gjaldtökuleiðir í ferðaþjónustu fyrir Stjórnstöð ferðamála, en auk þess hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri Leikhúsmógúlsins, verið framkvæmdastjóri Miðborgar Reykjavíkur og Frönsku menningarhátíðarinnar Pourquoi Pas? – Franskt vor á Íslandi, sm var síðari hluti samvinnuverkefnis Frakka og Íslendinga á sviði menningar, vísinda og viðskipta. Í tæp 10 ár starfaði Sigrún Lilja sem forstöðumaður Upplýsingasviðs Útflutningsráðs Íslands.

Þá situr Sigrún Lilja í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, í stjórn Átaks til atvinnusköpunar og einnig í stjórn Menningarnefndar Garðabæjar. Auk þess er hún formaður Leiklistarráðs og situr í úthlutunarnefnd starfslauna úr launasjóði sviðslistafólks.

Sigrún Lilja segir að verkefnið leggist vel í sig og er tilbúin að takast á við þau krefjandi verkefni og áskoranir hjá millilandaráðunum, sem felast í því að efla viðskiptatengsl milli íslenskra og erlendra fyrirtækja ásamt því að stuðla að aukinni alþjóðavæðingu í íslensku atvinnulífi. Sigrún Lilja tekur við starfinu af Huldu Bjarnadóttur og hefur formlega störf þann 1. ágúst næstkomandi.