Eins og kemur fram í könnun Viðskiptablaðsins sem birtist í blaði dagsins kemur fram að 52% stuðningsmanna Framsóknarflokksins vilja Sigmund Davíð Gunnlaugsson áfram sem formann.

Samkvæmt könnun sem Fréttablaðið birti svo í morgun þá er fólk líklegra til að kjósa flokkinn ef Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra myndi leiða flokkinn.

Könnun gerð af stuðningsmönnum Sigurðar Inga

Könnunin sem gerð er af stuðningsmönnum Sigurðar Inga, sem fer fram gegn formanninum á landsfundi flokksins um helgina, sýnir að rúm 40% væru líklegri til að styðja flokkinn í komandi alþingiskosningum með hann sem formann frekar heldur en Sigmund Davíð.

Einungis 8,6% töldu líklegt að þau myndu kjósa flokkinn væri sá síðarnefndi formaður. Fyrir rúmlega helming svarenda skipti þó engu máli hvor myndi leiða flokkinn, atkvæði þeirra fari annað.

Stuðningur við Sigmund svipaður milli kannana

Könnun Fréttablaðsins segir jafnframt að þegar kjósendur Framsóknarflokksins voru spurðir sé stuðningur við hann 49%, en Sigurður Ingi hefði 45% stuðning, meðan 7% væru enn óákveðin.

Í könnun Viðskiptablaðsins kemur hins vegar fram að meðal Framsóknarmanna væri stuðningur við Sigurð Inga 37% en stuðningur við Lilju Alfreðsdóttur 11%. Þar kemur jafnframt fram stuðningur við hvern frambjóðenda fyrir fylgismenn annarra flokka og alla kjósendur.

Könnun Viðskiptablaðsins var gerð dagana 21. til 28. september og hófst hún því áður en Sigurður Ingi lýsti yfir sínu framboði. Könnun Fréttablaðsins var gerð dagana 15. til 26. september og hófst hún því enn fyrr.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .