Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, skaut föstum skotum á Sigmund Davíð Gunnlaugsson á flokksþingi Framsóknarflokksins í dag.

Sigmundur lýsti yfir óánægju sinni með að hafa einungis fengið úthlutað 15 mínútum til að halda ræðu á meðan núverandi formaður og mótherji í formannsslagnum fékk að halda klukkustundar ræðu. Sagði hann Sigmund Davíð hafa tekið einhliða ákvörðun um að forsætisráðherra fengi ekki lengri tíma til að fara yfir síðustu sex mánuði ríkisstjórnarsamstarfsins.

„Það stefndi í að dagar ríkisstjórnarinnar væru taldir en ég tók að mér það verkefni að halda saman ríkisstjórninni," sagði Sigurður Ingi meðal annars og vísaði þar til Panama-hneykslisins.

Formannskjör Framsóknarflokksins fer fram á morgun og Sigurður Ingi talaði mikið um traust, bæði hvað leiddi til þess að fólk missti traust og hvernig það mætti fá traustið til baka. Hann nefndi Sigmund Davíð aldrei á nafn en augljóst var um hvað hann var að tala.

„Missi maður traust má telja fullvíst að það er manns eigin breytni sem leiddi til þess,“ sagði Sigurður Ingi. Sagði hann að menn þyrftu að líta í eigin barm og vera færir um að sjá hlutina með augum annarra. Sigurður Ingi myndi aldrei kenna vinum sínum um eitthvað sem aðrir bentu honum á.

Varðandi mögulegt ríkisstjórnarsamstarf gaf hann í skyn að enginn flokkur myndi vilja vinna með Framsókn ef flokkurinn væri enn undir handleiðslu Sigmundar.

„Við þurfum að hafa flokk eða flokka sem vilja vinna með okkur. Hvernig er staðan í þeim efnum?“