Aðeins þrjú félög lækkuðu á grænum degi Kauphallarinnar í dag. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 3,7 milljörðum króna og hækkaði úrvalsvísitalan um 0,10% og stendur nú í 3.303,51 stigum.

Síminn hækkaði um 1,63% í 550 milljóna viðskiptum og endaði daginn á 12,5 krónum á hlut sem er hæsta gengi frá skráningu félagsins. Gengi Arion banka hækkaði mest allra félaga á aðalmarkaði í viðskiptum dagisins, um 1,64% í 390 milljóna viðskiptum. Mest velta var með bréf Origo, en viðskipti með bréfin nam 560 milljónum króna og hækkaði gengi bréfa félagsins um 1,5%.

Marel lækkaði mest allra félaga, um tæpt eitt prósent í 300 milljón króna viðskiptum. Icelandair lækkaði einnig um 0,77% og Síldarvinnslan lækkaði um 0,4%.

Á First North markaðnum hækkaði flugfélagið Play um 0,86% í 50 þúsund króna viðskiptum. Gengi bréfa Solid Clouds hækkaði um 7,8% í milljón króna viðskiptum.