Síminn hefur gengið frá kaupum á hlut í Uppkasti, nýrri íslenskri streymisveitu, sem er að sögn stofnenda sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. ViðskiptaMogginn greinir frá þessu.

Stefán Arnar Þórisson og Arnar Arinbjarnason eru stofnendur Uppkasts. Á streymisveitunni getur fólk miðlað þekkingu sinni eða hæfileikum til áskrifenda og haft af því tekjur sem miðast við hve oft efnið er spilað. Í samtali við ViðskiptaMoggann segja stofnendurnir að allt efni á streymisveitunni verði á íslensku og efnistökin fjölbreytt.

Aðrir fjárfestar á borð við Ólaf Andra Ragnarsson, Jónas Björgvin Antonsson, Jón Gunnar Jónsson og Halldór H. Jónsson hafa einnig komið að verkefninu. Auk þess er Arcur ráðgjöf í hluthafahópi Uppkasts.