Fjarskiptafélagið Síminn lækkaði um 3,4%, mest allra félaga Kauphallarinnar, í 333 milljóna króna veltu í dag. Síminn birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markað í gær en þar kom fram að félagið hafi hagnast um 618 milljónir króna á tímabilinu. Á hinum enda aðalmarkaðarins var Sýn sem hækkaði um 1,7% í 70 milljóna veltu. Von er á uppgjöri frá Sýn síðar í dag.

Mesta veltan var með hlutabréf Kviku sem hækkuðu um 0,4% í 614 milljóna viðskiptum. Gengi bankans hefur nú hækkað um 137% á einu ári. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði einnig um 0,8% og stendur í 121 krónu á hlut.

Hlutabréfaverð Play stökk upp um 4,3% í dag og stendur nú í 21,6 krónum á hlut. Velta með hlutabréf flugfélagsins var þó einungis 61 milljón. Play skilaði uppgjöri fyrir fyrri helming ársins í gærkvöldi. Þar kom meðal annars fram að félagið hafi skrifað undir viljayfirlýsingu fyrir sex flugvélar á næstu tveimur árum.

Veltan jókst um 172% milli ára

Nasdaq birti í dag viðskiptayfirlit yfir ágústmánuð. Þar kom fram að heildarviðskipti á íslenskum hlutabréfamarkaði hafi numið 82,1 milljarði eða um 3,9 milljörðum að meðaltali á dag. Það er um 28% hækkun frá fyrri mánuði og 172% hækkun frá ágúst í fyrra.

Mest viðskipti í mánuðinum voru með hlutabréf Arion eða um 17,2 milljarðar en bréf Kviku fylgdu þar á eftir í 9 milljörðum. Sé þó litið til fjölda viðskipta voru hlutabréf Íslandsbanka efst eða alls 2.021 talsins.

Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga á bæði aðalmarkaði og First North markaði Nasdaq á Íslandi nam 2.400 milljörðum króna í lok mánaðarins, samanborið við 2.288 milljarða í lok júlí.