Síminn og Sensa eru farin í samstarfs við Verne Global að því er kemur fram í fréttatilkynningu en þar segir að markmiðið sé að bjóða eina bestu net- og hýsingaraðstöðuna á Íslandi á alþjóðamarkaði. Síminn hyggst flytja fjóra af sex hýsingarsölum sínum í gagnaver Verne Global.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir í tilkynningunni að það verði sífellt meira aðkallandi fyrir fyrirtæki og stofnanir að vinna með og nota þau gögn sem þau búa yfir:  „Við erum að undirbúa okkur fyrir framtíðina og með samstarfinu við Verne Global styrkjum við viðskiptasambönd okkar og þar af leiðandi samstæðuna í heild sinni,“ segir hann.

„Verne Global er hinn augljósi kostur þegar kemur að stórvirkri tölvuvinnslu nú þegar fyrirtæki leita eftir bestu þjónustunni til að hámarka notkun forrita sinna. Við erum mjög ánægð með að hafa hafið samstarf við Símann og Sensa til að styrkja og breikka vöruframboð okkar enn frekar,“ er einnig haft eftir Jeff Monroe, forstjóra Verne Global.

Þá segir Valgerður H. Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, að þetta skref veiti Sensa tækifæri til þess að bæta þjónustuna við núverandi viðskiptavini og til að stíga inn á alþjóðamarkaðinn með sérfræðiþjónustu fyrir stórvirka tölvuvinnslu, þar sem þörfin vex hratt.

Sensa, dótturfélag Símans, er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni fyrir fyrirtæki og veitir þjónustu við hýsingu og rekstur sem og net-, samskipta- og öryggislausnir.  Sensa starfar með Cisco, Microsoft, Paolo Alto, Fortinet, Amazon Web Services og NetApp sem og öðrum leiðandi fyrirtækjum á sínu sviði.

Verne Global var stofnað árið 2007 og starfrækir stærsta gagnaver Íslands. Verne Global sérhæfir sig í stórvirkri tölvuvinnslu eða „high performance computing“ og í hámörkun öruggra og sveigjanlegra gagnaverslausna sem eru eingöngu drifin áfram af 100% endurnýjanlegri orku. Meðal viðskiptavina Verne Global eru fyrirtæki úr ýmsum atvinnugreinum sem krefjast umfangsmikillar tölvuvinnslu.