Tekjur Símans á fyrsta ársfjórðungi námu 6.093 milljónum króna sem er 1,2% aukning frá fyrsta fjórðungi 2021. Heildarhagnaður fjarskiptafélagsins nam 746 milljónum króna á tímabilinu.

Hagnaður Símans af reglulegri starfsemi nam 553 milljónum og jókst um 47% frá fyrsta fjórðungi 2021. Í fjárfestakynningu kemur fram að hagnaður af reglulegri starfsemi hafi aukist um 17% ef leiðrétt er fyrir 113 milljóna króna söluhagnaði af eignarhlut í Auðkenni sem var nýlega selt til ríkissjóðs.

„Árið fer ágætlega af stað og í takti við væntingar okkar. Allt í senn er hóflegur vöxtur í tekjum, EBITDA og EBIT milli ára á fyrsta fjórðungi. Við erum stolt af slíkri þróun í umbreytingaferlinu sem nú fer fram á samstæðunni og því harða samkeppnisumhverfi sem ríkir á mörkuðum fjarskipta og afþreyingar á Íslandi,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans í afkomutilkynningunni .

Tekjur Símans af farsíma hækkuðu um tæp 9% á milli ára en aukningin er sögð skýrast af góðu gengi Þrennu og auknum SMS-magnsendingum. Þá hafi auglýsingatekjur af sjónvarpsstarfsemi Símans aukist en gagnaflutningstekjur stóðu í stað.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.327 milljónum samanborið við 1.274 milljónir á sama tímabili í fyrra og hækkar því um 4,2%. EBITDA hlutfall Símans hækkaði úr 21,2% í 21,8% á milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) á fyrsta fjórðungi jókst um 13,9% frá fyrra ári og nam 574 milljónum.

Eignir Símans námu 70,4 milljörðum í lok mars. Eiginfjárhlutfall félagsins var 43,9% og eigið fé var um 30,9 milljarðar.

Fjárfestingar auknar tímabundið

Í október samdi Síminn við Ardian France SA um sölu á öllum eignarhlut í fjarskiptafélaginu Mílu. Virði viðskiptanna (e. enterprise value) er 78 milljarðar . að meðtöldum fjárhagslegum skuldbindingum Mílu sem kaupandinn yfirtekur. Samkvæmt kaupsamningi fær Síminn greitt á efndadegi um 44 milljarða í reiðufé og 15 milljarða í formi skuldabréfs til þriggja ára.

Vænta má niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa franska sjóðastýringarfyrirtækisins Ardian á dótturfyrirtæki okkar Mílu fyrir lok júlí.

„Ýmsar aðgerðir eins og hönnun framtíðar efnahagsreiknings Símans bíða þess að söluferlið verði til lykta leitt, en við viljum þó nýta tímann vel á meðan. Þannig er nú áhersluatriði innan Símans að byggja upp mannauð, þjónustugetu og skipulag félagsins. Verða fjárfestingar auknar tímabundið í þjónustuinnviðum Símans á árinu, til að styrkja félagið fyrir nýja tíma,“ skrifar Orri.

Sjá einnig: Síminn fjölgar framkvæmdastjórum

Fyrirhugað er að fjárfestingar Símans, án Mílu, muni aukast töluvert í ár en um er að ræða tímabundna aukningu. Í fjárfestakynningu félagsins áætlar Síminn að fjárfest verði fyrir 4,3-4,6 milljarða í ár samanborið við 2,2 milljarða árið 2021 og 2,9 milljarða árið 2020.

Hluti af aukningunni skýrist af endurnýjun á sýningarrétti á enska boltanum. Einnig verður fjárfest meira í innri kerfum Símans en þau verkefni eru sögð tengjast nýjum tekjutækifærum á sjónvarpsmarkaði og í stafrænni þróun. Fram kemur að án þessara tímabundnu fjárfestinga þá verið fjárfestingar í hefðbundnum rekstrarfjármunum og öðrum sýningarréttum um 2,3-2,6 milljarðar í ár.

Mynd tekin úr fjárfestingakynningu Símans.